Ályktun

28. febrúar 2015 - Helga Þórðardóttir

Grímulaus skattaundanskot hjá HS-veitum

Stjórnmálasamtökin Dögun vara eindregið við þeirri þróun sem nú á sér stað í fyrirtækinu HS-veitur á Suðurnesjum. Í Reykjavík vikublað þann 21.febrúar var sagt frá aðgerðum fyrirtækisins til þess að hygla eigendum skattalega, þ.e.a.s. að koma eigendum undan því að borga skatta. Á meðal eigendanna eru einkaaðilar, sem með aðgerðum fyrirtækisins fá um 600 milljónir króna til eignar. Það nemur árslaunum 170 verkamanna.

Júlíus Jónsson forstjóri HS-veitna segir um aðgerðir fyrirtækisins: ,,Þetta er hagkvæmara fyrir hluthafana skattalega séð.“ Spyrja má hver eða hverjir í stjórn fyrirtækisins áttu hugmyndina að þessari aðgerð HS-veitna.
Alls settu HS-veitur um 2 milljarða króna með þessum hætti til hluthafanna. Skattur af þeirri upphæð myndi nema um 400 milljónum. Með þessum grímulausa hætti er fyrirtækið að gefa skattayfirvöldum langt nef og færa eigendum, í skjóli einkavæðingar, fúlgur fjár.

Dögun mótmælir þessu harðlega og skorar á skattayfirvöld að skoða þetta mál. Aðgerðir af þessu tagi eru ólíðandi og aðeins fallnar til þess að auka enn frekar ójöfnuð í íslensku samfélagi, þar sem fátækt barna hefur aukist hvað mest á árunum 2008-2012 samkvæmt skýrslu OECD sem kom út á þessu ári. Á eftir Íslandi kemur Grikkland samkvæmt skýrslunni.

Dögun telur þetta vera  dæmi um eina verstu afleiðingu einkavæðingar á orkuauðlindum landsins og einbeitta græðgisvæðingu. Slíka þróun í auðlindamálum, bæði til lands og sjávar verður að stöðva.

Dögun,stjórnmálasamtök um réttlæti sanngirni og lýðræði,
Helga Þórðardóttir formaður framkvæmdaráðs.

Fréttatilkynning 8. Febrúar

8. febrúar 2015 - Helga Þórðardóttir

Fréttatilkynning vegna orða Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.
Fjármálaráðherra skellir skuldinni á skattrannsóknarstjóra og heldur því fram að ábyrgðina sé að finna þar, á því að ekki sé búið að kaupa gögn um íslenska skattrgreiðendur með fé í skattaskjólum.
Stjórnmálasamtökin Dögun gáfu þjóðinni það áramótaheit að stuðla að því með öllum ráðum að hjálpa stjórnvöldum við að  kaupa gögn um fjármuni í erlendum skattaskjólum. Dögun hvatti öll önnur stjórnmálasamtök til að taka þátt í þessu verkefni. Viðbrögð annarra stjórnmálasamtaka voru engin.
Forsvarsmenn verkefnisins hjá Dögun hafa meðal annars átt ágæt samskipti við skattrannsóknarstjóra vegna málsins. Af þeim upplýsingum og viðbrögðum sem eru til staðar er alveg ljóst að það skortir pólítískan vilja til að taka á verkefninu.
Stærsta vandamálið er vitnavernd fyrir uppljóstrarann. Bjarni vill vita hverjum verið er að borga fyrir gögnin. Það er auðvitað alveg útilokað og myndi setja viðkomandi í mikla hættu.
Það þarf einmitt að borga viðkomandi fyrir gögnin með órekjanlegum hætti og það þarf að vera alveg öruggt að ekki sé hægt með neinu móti að rekja gögnin til hans.
Það eina sem stendur í veginum er pólítískur vilji til að kaupa gögnin.

Dögun lýsir yfir stuðningi við skattrannrannsóknarstjóra um að ná þessum gögnum sem sýna framá töluverð undanskot fjármuna og skatttekna í gegnum erlend skattaskjól.
Stöðu málsins samkvæmt er boltinn ekki hjá skattrannsóknarstjóra.
Boltinn er hjá Bjarna.
Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.
Helga Þórðardóttir, formaður framkvæmdaráðs.